Til varnar hagfræðinni. Á hagfræðin að skýra kulnun sólar, finna lækningu við krabbameini og skýra uppruna alheimsins?

Þórólfur Matthíasson

ÚtdrátturÞað er orðið nokkuð vinsælt tómstundagaman hjá álitsgjöfum og bloggurum hérlendis og erlendis að láta niðrandi ummæli falla um hagfræði og hagfræðinga. Ekki er ástæða, hvorki fyrir fræðigreinina né iðkendur hennar að amast við gagnrýni sé markmið hennar að stuðla að endurbótum og uppbyggingu. Sleggjudómar, órökstuddar fullyrðingar og samsærisbrigsl eru hins vegar ekki til uppbyggingar fallin. Hin opinbera umfjöllun um hagfræði ber með sér að álitsgjafar og bloggarar hafi ólíkar hugmyndir um hvað hagfræði sé. Það er þess vegna rétt að byrja á að skilgreina viðfangsefnið. Orðabókarskilgreiningin er sú að hagfræði sé fræðigrein sem fjallar um framleiðslu, dreifingu og neyslu vöru og þjónustu. Markmið greinarinnar er að skilja á hvaða grundvelli einstaklingar skiptast á vörum og þjónustu. Til að ná markmiðum sínum stunda iðkendur greinarinnar víðtæka söfnun gagna og upplýsinga. Þetta má kalla hina lýsandi hlið hagfræðinnar. Til að skilja þessi gögn og setja þessar upplýsingar í samhengi setja iðkendurnir fram kenningar um atferli og markmið einstaklinga og hópa einstaklinga. Á grundvelli kenninganna eru síðan settar fram tilgátur sem reynt er að styðja eða fella. Skylda vísindamannsins er leggja að minnsta kosti jafn mikið á sig til að fella tilgátu, sem hann hefur sett fram, eins og til að styðja hana. Að þessu leyti eru kröfur til iðkenda í fræðistörfum með öðrum hætti en kröfur til stjórnmálamanna, bloggara eða álitsgjafa.

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.