Efling íslenska sveitarstjórnarstigsins: Áherslur, hugmyndir og aðgerðir

Grétar Þór Eyþórsson

Útdráttur



Í þessari grein er fjallað um þær áherslur, hugmyndir og aðgerðir sem miðað hafa að því að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi, frá miðri 20. öldinni til dagsins í dag. Fjallað er um hugmyndir, greinaskrif, lagasetningar, átaksverkefni um eflingu sveitarfélaga með fækkun þeirra og stækkun og annað sem telja má hafa verið hluti af þeirri viðleitni að efla sveitarstjórnarstigið á Íslandi á þessu tímabili. Jafnframt er reynt að meta hvernig þróun til eflingar sveitarfélaga á Íslandi fellur að greiningarramma ítalska stjórnmálafræðingsins Bruno Dente um það hvernig ríki hafa reynt að lögmæta ríkisvaldið með því að laga það að þjóðfélagsþróuninni með endurskoðunar- og umbreytingarferlum m.a. á neðri stjórnstigum. Upphaf hugmynda sem lotið hafa að því að efla sveitarstjórnarstigið á því tímabili sem skoðað var má rekja til greinar Jónasar Guðmundssonar sem birtist 1943 í tímaritinu Sveitarstjórnarmál. Síðan þá hafa ný Sveitarstjórnarlög verið samþykkt á Alþingi árin 1961, 1986 og 2011. Einu sinni hafa verið sett sérstök lög um sameiningu sveitarfélaga, árið 1970. Þá hefur tvívegis verið efnt til átaksverkefna með því að efna til víðtækra kosninga um sameiningu sveitarfélaga; fyrra skiptið árið 1993 og í það síðara árið 2005. Tvívegis hafa stórir málaflokkar verið fluttir úr umsjá ríkis til sveitarfélaga; grunnskólinn frá 1996 og málefni fatlaðra frá 2011. Meginniðurstaðan varðandi greiningarramma Dente um umbreytingar á sveitarstjórnarstigi er sú að finna má aðgerðum, hugmyndum og áherslum á Íslandi víða stað í greiningarramma Dente. Sameiningar og verkefnaflutningurfrá ríki tilsveitarfélaga hafa þar lengst af verið meginstefið. Efling sveitarfélaga með innri breytingum er nokkuð sem fyrst og fremst hefur komið til eftir síðustu aldamót og þá einkanlega í formi lýðræðisumbóta.

Efnisorð


Efling sveitarstjórnarstigsins; umbreytingar á sveitarstjórnarkerfi; sameining sveitarfélaga; verkaskipting ríkis og sveitarfélaga; lögmæti.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2012.8.2.12

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir




        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.