Íslenska efnahagsundrið. Frá hagsæld til frjálshyggju og fjármálahruns

Stefán Ólafsson

ÚtdrátturHér er greint frá rannsókn á þróun hagvaxtar og kaupmáttar á lýðveldistímanum á Íslandi. Viðfangsefnið er skoðað í samhengi við nýlegar fullyrðingar um "íslenska efnahagsundrið", þ. e. þá hugmynd að hagsæld og kaupmáttur hafi aukist meira eftir árið 1995 en á fyrri áratugum lýðveldisins. Niðurstöður sýna að bæði þjóðarframleiðsla og kaupmáttur almennings jukust langmest á tímabilinu frá 1960 til um 1980. Hið eiginlega íslenska efnahagsundur átti sér stað á þessum tíma, en ekki eftir árið 1995. Strax árið 1980 var Ísland í öðru sæti á lista Sameinuðu þjóðanna yfir þjóðir með bestu lífskjör í heimi. Árið 1990 var Ísland í þriðja sæti á þeim lista. Í reynd er bæði hagvöxtur og kaupmáttaraukning á frjálshyggjutímanum eftir 1995 undir meðallagi á lýðveldistímanum öllum. Góðæri fyrri áratuganna einkenndust af almennri og jafnri aukningu kaupmáttar meðal almennings, en góðærið eftir 1995 einkenndist af sívaxandi ójöfnuði, sem fól í sér að hátekjufólk og stóreignafólk naut hagvaxtarins í meiri mæli en þeir sem lægri tekjur höfðu. Góðærið eftir árið 2003 hefur mikla sérstöðu á lýðveldistímanum, vegna þess að það var öðru fremur byggt á gríðarlegri skuldasöfnun erlendis. Þessi skuldasöfnun hefur nú leitt til fjármálahruns og kreppu á Íslandi, með miklum neikvæðum afleiðingum fyrir lífskjör og framtíð þjóðarinnar. Sú framvinda er einkum rakin til áhrifa róttækrar frjálshyggju sem innleidd var í vaxandi mæli eftir 1995. Frjálshyggjuvæðingin náði hámarki með einkavæðingu bankanna sem lokið var að fullu snemma árs 2003. Það gerðist í aðstæðum þar sem þjóðin hafði nýlega fengið frelsi til fjármagnsflutninga og þar sem eftirlits og aðhaldskerfi hins opinbera var veikt fyrir, meðal annars vegna stefnu stjórnvalda. Nýir eigendur bankanna beittu þeim á ótæpilegan hátt í fjárfestingastarfsemi, sem líkja má við óhefta spákaupmennsku. Í kjölfarið fylgdi dæmigerð ofþensla og eignaverðsbóla, með skuldasöfnun sem nú hefur leitt til fjármálahruns. Þessari framvindu er lýst með tilvísunum til klassískra kenninga um fjármálakreppur, íslenskra skrifa um frjálshyggjustefnu og með tilvísunum í greiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á orsökum hrunsins á Íslandi.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2008.4.2.6

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.