Heimur hátekjuhópanna. Um þróun tekjuskiptingar á Íslandi 1993-2007

Arnaldur Sölvi Kristjánsson, Stefán Ólafsson

ÚtdrátturReynsla vestrænna þjóða bendir til að þegar frjálshyggju gætir meira í stjórnarstefnunni, með óheftari markaðsháttum og mikilli samþjöppun eigna, þá verði tekjuskiptingin í samfélaginu ójafnari. Þetta gerðist í Bandaríkjunum á áratugnum fram að fjármálahruninu 1929 og þessa hefur sömuleiðis gætt með afgerandi hætti á seinni frjálshyggjutímanum í Bandaríkjunum og Bretlandi (þ.e. á stjórnartíma Reagans og Thatchers frá um 1980). Þannig urðu umskipti í tekjuskiptingunni eftir 1980 mjög afgerandi og nú í aðdraganda alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2007 var hlutur hátekjuhópanna í Bandaríkjunum orðinn álíka stór og var í aðdraganda kreppunnar miklu. Frjálshyggjuáhrifin breiddust nokkuð út á Vesturlöndum eftir 1980 og almennt gætti samhliða því aukins ójafnaðar í tekjuskiptingu margra OECD-ríkja. Frjálshyggjuáhrifa tók að gæta á Íslandi með sívaxandi þunga frá um 1995 og einmitt frá þeim tíma tók tekjuskiptingin að verða mun ójafnari en áður hafði verið. Ákveðin tímamót eru við árið 2003 en frá þeim tíma jókst hraðinn í ójafnaðarþróuninni til muna. Aukning ójafnaðar á Íslandi virðist hafa verið mun örari en almennt var í OECD-ríkjunum. Í þessari grein er þeirri þróun ítarlega lýst, fyrst almennt og síðan með nánari greiningu á þróun háu teknanna í samfélaginu 1993-2007. Þá eru helstu áhrifavaldar hins aukna ójafnaðar greindir, svo sem áhrif fjármagnstekna, atvinnutekna og lífeyristekna, auk jöfnunaráhrifa skatta- og bótakerfisins. Aukning ójafnaðar var mun meiri hjá hjónum og sambúðarfólki en hjá einhleypum. Tekjuhæstu 615 fjölskyldurnar á Íslandi (hæsta 1% fjölskyldna) fengu í sinn hlut 4,2% af heildartekjum fjölskyldna í landinu árið 1993, en árið 2007 var hlutur þeirra af tekjum allra fjölskyldna orðinn 19,8%. Ríkustu 10% fjölskyldna höfðu aukið hlut sinn af heildartekjum fjölskyldna úr 21,8% árið 1993 í 39,4% árið 2007. Hjá hinum 90% fjölskyldnanna minnkaði tekjuhlutdeildin að sama skapi úr um 78% í rúm 60% á sama tíma. Í samræmi við ofangreint hækkuðu meðaltekjur efstu tekjuhópanna gríðarlega mikið. Efsta 1% fjölskyldna var að jafnaði með 1,6 millj. kr. í fjölskyldutekjur á mánuði 1993 (á föstu verðlagi) en hafði hækkað í 18,2 millj. kr. á mánuði 2007 (allar tekjur meðtaldar: atvinnutekjur, lífeyristekjur og fjarmagnstekjur). Aukningin hjá þessum hæstu tekjuhópum var margföld aukning meðaltekjufólks eða lágtekjufólks á sama tíma. Skattastefnan jók ójöfnuðinn enn frekar. Auk þess rýrðu stjórnvöld bæði barna- og vaxtabætur til ungra fjölskyldna umtalsvert frá 1995 til um 2006, sem einnig dró úr jöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins. Niðurfelling hátekjuskattsins á árabilinu 2003-2007 magnaði þessa þróun enn frekar. Þannig var beinum ívilnunum úthlutað til hátekjufólks um leið og skattbyrði lágtekjufólks (lífeyrisþega, ungra barnafjölskyldna, einstæðra mæðra og fólks í lágt launuðum störfum á vinnumarkaði) var aukin. Um leið og markaðurinn jók ójöfnuð tekna fyrir skatta verulega, juku stjórnvöld á Íslandi ójöfnuðinn enn frekar með skattastefnu sinni. Þessi framvinda var um margt einstök í samfélagi vestrænu þjóðanna.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2009.5.1.5

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.