Bankahrun, ímynd og traust

Þórhallur Guðlaugsson, Friðrik Eysteinsson

ÚtdrátturÍ greininni er fjallað um afmarkaðan þátt í kjölfar hruns íslensku bankanna 2008, þ.e. ímynd þeirra. Rannsóknarspurningin er: "Hvaða áhrif hefur bankahrun á ímynd banka og sparisjóða?" Fjallað er almennt um hvernig ímynd verður til og hvernig markaðsstarf hefur þróast í þá átt að beina tilboði skipulagsheildar að vel skilgreindum markhópi og leggja áherslu á að mynda tengsl við hann. Í rannsókninni er bæði lagt mat á ímynd einstakra banka í samanburði við aðra, sk. hlutfallslegur samanburður, og þróun meðaltals ímyndarþátta fyrir einstaka banka og greinina í heild. Rannsóknin byggir á aðferðafræði vörukorta en í greininni er gerð ítarleg grein fyrir henni. Rannsóknin styðst við niðurstöður úr þremur könnunum meðal háskólanema við Háskóla Íslands sem gerðar voru í apríl 2008, febrúar 2009 og apríl 2009. Niðurstöður kannananna eftir hrunið eru bornar saman við niðurstöður fyrir það og af þeim samanburði dregnar ályktanir. Enn fremur er horft til eldri kannana en ímynd banka og sparisjóða hefur verið mæld með sömu aðferð frá 2004. Megin niðurstaða rannsóknarinnar er að ímynd Landsbankans virðist hafa skaðast mest í kjölfar bankahrunsins. Eftir hrunið tengist bankinn sterkar við spillingu en áður en fyrir það tengdist hann sterkt við eiginleika eins og traust og samfélagsleg ábyrgð. Bankahrunið virðist ekki aðeins hafa skaðað tiltekin vörumerki á markaðinum heldur hefur atvinnugreinin sem slík orðið fyrir miklum ímyndarlegum skaða. Meðaleinkunn jákvæðra eiginleika lækkar umtalsvert á meðan að meðaleinkunn eiginleika eins og spilling hækkar mikið hjá öllum bönkunum. Spilling virðist því vera sá eiginleiki sem helst einkennir íslenskan bankamarkað eftir bankahrunið. Þekkt er að skortur á trausti dregur úr virkni hagkerfisins og hefur áhrif á hagvöxt. Áhættufjárfestingar dragast saman og samningar þurfa að vera betur niður njörvaðir sem aftur leiðir til hærri viðskiptakostnaðar. Út frá þjóðhagslegu sjónarmiði skiptir traust til bankakerfisins því miklu máli.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2010.6.1.2

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.