Stefna íslenskra stjórnvalda og vöxtur ferðaþjónustu á jaðarsvæðum: Áhrif Héðinsfjarðarganga í Fjallabyggð

Þóroddur Bjarnason, Edward H. Huijbens

Útdráttur


Með mikilli fjölgun erlendra ferðamanna hefur ferðaþjónustan fest sig í sessi sem ein af meginstoðum íslensks atvinnulífs og miklar væntingar eru bundnar við uppbyggingu ferðaþjónustu í ýmsum íslenskum landsbyggðum þar sem samþjöppun og tækniþróun hefur leitt til mikillar fækkunar starfa í sjávarútvegi og landbúnaði. Greiðar samgöngur eru hins vegar ein helsta forsenda öflugrar og arðbærrar ferðaþjónustu og hefur greinin átt erfitt uppdráttar á þeim svæðum sem búa við miklar fjarlægðir eða hindranir á samgöngum. Í þessari rannsókn er lagt mat á áhrif Héðinsfjarðarganganna á straum ferðamanna á norðanverðum Tröllaskaga til að varpa ljósi á áhrif samgöngubóta á ferðaþjónustu á jaðarsvæðum á tímum vaxandi ferðaþjónustu. Beitt er samþættri aðferðafræði sem byggir á talningu sjálfvirkra umferðarteljara Vegagerðarinnar, niðurstöðum úr umferðarkönnunum, könnunum meðal ferðamanna í Fjallabyggð og gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar benda til þess að ferðamönnum í Fjallabyggð hafi fjölgað um helming eftir opnun Héðinsfjarðarganganna, Fjallabyggð tengst inn á ferðamannasvæði Eyjafjarðar og orðið áfangastaður ferðamanna milli höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar. Héðinsfjarðargöngin virðast þannig hafa stuðlað að eflingu ferðaþjónustu og fjölbreyttara atvinnulífi á svæði sem búið hefur við fólksfækkun og hnignun frumframleiðslunnar um langt árabil. Hins vegar virðast áhrif ganganna í Skagafirði vera takmörkuð og möguleikar á samfelldu ferðamannasvæði frá Sauðárkróki í vestri til Húsavíkur í austri og frá Siglufirði í norðri til Akureyrar í suðri virðast enn ekki hafa orðið að veruleika. Slíkar breytingar fylgja ekki sjálfkrafa í kjölfar samgöngubóta heldur krefjast þær samstillts átaks stjórnvalda og heimamanna um nýtingu þeirra möguleika sem skapast með fjárfestingum í innviðum samfélagsins.

Efnisorð


Ferðamál; Samgöngur; Fjallabyggð.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2014.10.2.18

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.