Velferðarþjónusta og fötluð börn: Reynsla foreldra af starfi fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar

Snæfríður Þóra Egilson, Sara Stefánsdóttir

Útdráttur


Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu foreldra fatlaðra barna af þjónustunni sem þeir og börn þeirra njóta hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, og að greina þætti sem tengjast ánægju foreldra með þjónustuna. Notað var blandað skýringarsnið. Í upphafi var gögnum safnað með matslistanum Mat foreldra á þjónustu sem sendur var til foreldra 115 fatlaðra barna, svarhlutfall var um 50%. Lýsandi tölfræði, marktektarprófum og fylgnistuðlum var beitt við gagnagreiningu. Því næst tóku 14 foreldrar fatlaðra barna þátt í umræðum rýnihópa til að dýpka og túlka megindlegu niðurstöðurnar frekar. Greining gagna leiddi í ljós að foreldrar, sér í lagi foreldrar yngri barna, telja að þjónusta Fjölskyldudeildarinnar samræmist hugmyndum um fjölskyldumiðaða þjónustu. Foreldrar upplifa jákvætt og styðjandi viðmót, gott aðgengi að starfsfólki og mikilvægan stuðning frá því. Einnig að þjónustan sé sveigjanleg og skjótt brugðist við úrlausnarefnum. Hins vegar skortir töluvert á upplýsingagjöf og skilgreina þarf betur hlutverk og verksvið deildarinnar. Foreldrar barna, sem þurfa töluverða eða alltaf fulla aðstoð við daglegar athafnir, voru ánægðari með þjónustuna en foreldrar barna sem eru alveg eða að mestu sjálfbjarga. Foreldrar barna með einhverfu voru óánægðari en foreldrar barna með skerðingu af öðrum toga. Þátttaka foreldra í ákvarðanatöku og jákvæð upplifun af framkomu fagfólks hafði forspárgildi um ánægju þeirra með þjónustuna. Leita þarf leiða til að stuðla að aukinni þátttöku foreldra í ákvarðanatöku og auka upplýsingagjöf enda getur skortur á upplýsingum valdið óöryggi og vakið þá tilfinningu að þjónustan sé tilviljanakennd. Sér í lagi þarf að huga að fjölskyldum barna á efri stigum grunnskóla.

Efnisorð


Fötluð börn; fjölskyldur; þjónusta; sveitarfélög.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2014.10.2.19

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.