"Hún gæti alveg verið múslimi og allt það": Ráðning fólks af erlendum uppruna til íslenskra fyrirtækja

Kristín Loftsdóttir, Margrét Sigrún Sigurðardóttir, Kári Kristinsson

Útdráttur


Erlendar rannsóknir benda á að innflytjendur standa oft höllum fæti á vinnumarkaði og sérfræðiþekking þeirra er oft ekki metin að verðleikum. Markmið þessarar greinar er að skoða ráðningarferlið hjá þjónustufyrirtækjum út frá viðhorfum mannauðsstjóra til erlendra umsækjenda. Rannsóknin, sem er eigindleg, byggir á svokallaðri, hugsa upphátt (e. think aloud) aðferð. Rannsakendur útbjuggu sex ferilskrár kvenkyns umsækjenda, frá jafnmörgum löndum, með umsókn um starf bókara hjá stóru þjónustufyrirtæki. Mannauðsstjórar voru beðnir um að lesa yfir starfslýsingu og hugsa svo upphátt á meðan þeir fóru yfir ferilskrárnar og mátu umsækjendur. Eftir að yfirferð yfir ferilskrár var lokið voru mannauðsstjórar spurðir nánar út í ráðningar á innflytjendum í vinnu. Helstu niðurstöður greinarinnar eru að mannauðsstjórar virðast meðvitaðir um fordóma gagnvart einstaklingum frá Austur-Evrópu og setja ekki fyrir sig að ráða konu frá Litháen eða Póllandi í starf bókara. Mikilvægt er að undirstrika kynjaðar birtingarmyndir fordóma og hvernig niðurstöður gætu hafa verið aðrar ef um karlkyns umsækjendur hefði verið að ræða. Niðurstöður greinarinnar benda jafnframt til að fordómar á íslenskum vinnumarkaði birtast helst í kringum trúarbrögð, þ.e. sem andstaða við Íslam. Viðmælendur reyndu þó að aðskilja sig frá þessum fordómum með vísun til kynjajafnréttis. Einnig bendir rannsóknin til þess að varasamt sé að draga of skörp skil á milli starfsfólks með reynslu eða menntun (skilled) og fólks sem hefur litla reynslu eða menntun (unskilled). Niðurstöðurnar benda einnig til að reynsla umsækjenda sé að miklu leyti metin eftir uppruna. Það er, að reynslan skipti mun meira máli ef hennar var aflað á íslenskum vinnumarkaði.

Efnisorð


Innflytjendur; ráðningarferli; fordómar; uppruni; mannauðsstjórar.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2016.12.2.10

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.