Að þjóna sömu herrum en keppa þó: Sameiginlegt eignarhald á íslenskum hlutabréfamarkaði

Ásta Dís Óladóttir, Friðrik Árni Friðriksson, Gylfi Magnússon, Valur Þráinsson

Útdráttur


Tilgangur þessarar greinar er að fjalla um og varpa ljósi á sameiginlegt eignarhald fyrirtækja á skráðum hlutabréfamarkaði á Íslandi og er það borið saman við umfang slíks eignarhalds í Bandaríkjunum. Nokkur umræða hefur verið um hversu fáir aðilar eiga stóra hluti í íslenskum fyrirtækjum sem eru í samkeppni við hvert annað og því er umfang þessa og þróun á íslenskum hlutabréfamarkaði greind. Sjónum er beint að þremur mörkuðum hér á landi þar sem tveir eða þrír keppinautar eru skráðir í Kauphöll Íslands. Það eru trygginga-, fjarskipta, og fasteignamarkaðir. Þá er umfang fjárfestinga lífeyrissjóða á íslenskum hlutabréfamarkaði greint á fjórum mismunandi tímapunktum; árin 2003, 2007, 2014 og 2016.
Þótt erfitt sé að bera saman hlutabréfaeign milli tímabila sést að sameiginlegt eignarhald var mun minna fyrir efnahagshrunið árið 2008 en á árunum eftir hrun, bæði hjá öllum stærstu hluthöfum skráðra fyrirtækja og þá einkum lífeyrissjóðum. Um mitt ár 2016 var eign lífeyrissjóða í skráðum hlutafélögum í Kauphöll Íslands orðin umtalsverð eða um 50% af markaðsvirði allra skráðra félaga. Stærstu lífeyrissjóðirnir áttu hlut í nánast öllum hlutafélögum í kauphöllinni. Á þeim mörkuðum sem hér er fjallað um fara lífeyrissjóðirnir með yfir 45% eign í öllum skráðum fasteignafélögum, yfir 35% í öllum skráðum tryggingafélögum og yfir 50% í fjarskiptafyrirtækjum á markaði.
Ekki liggur fyrir hvaða afleiðingar þetta sameiginlega eignarhald á íslenskum fyrirtækjum hefur á samkeppni og verð. Engar rannsóknir hafa enn verið gerðar á því. Bandarískar rannsóknir benda þó til þess að slíkt eignarhald hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í ljósi umfangs þess á Íslandi er ástæða til þess að greina áhrif þess hér og mun greinin því varpa betra ljósi á hvernig þróunin hefur verið á Íslandi síðustu tæpu tvo áratugi.

Efnisorð


Sameiginlegt eignarhald; Kauphöllin; lífeyrissjóðir; tryggingafélög; fasteignir; fjarskiptafyrirtæki.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2017.13.1.2

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.