Áhrif mismunandi hugtakanotkunar á viðhorf almennings

Viðar Halldórsson

Útdráttur


Pólitískri orðræðu er stýrt með notkun tungumálsins. Stjórnmálamenn miðla skilaboðum, beint og óbeint, í gegnum tungumálið í þeim tilgangi að auka stuðning og skapa sátt við pólitískar hugmyndir og aðgerðir. Með þessum hætti beita stjórnmálamenn ákveðnum skilgreiningum og hugtökum frekar en öðrum til að lýsa og „merkja“ fyrirbæri í orðræðunni. Þau hugtök sem stjórnmálamenn halda uppi í almennri umræðu þarf því að greina í félagslegu og pólitísku ljósi. Þessi grein byggir á orðræðugreiningu á hugtakanotkun stjórnmálamanna sem unnin var úr spurningalistakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þar var skoðaður munur á viðhorfum almennings til þriggja (mis)mikilvægra málefna í íslenskum samtíma, þar sem einn hópur fékk spurningu um málefni með „hlutlausu“ hugtaki en annar hópur fékk spurningu um sama málefni með „gildishlöðnu“ hugtaki. Tilgáturnar gerðu ráð fyrir að hlutlausari hugtök hlytu meiri stuðning heldur en gildishlaðnari hugtök. Nánar tiltekið var spurt um viðhorf til: a) lögleiðingar spilahalla eða spilavíta hér á landi; b) setningu veggjalda eða vegtolla á þjóðvegum landsins; og c) nýrra laga um þungunarrof eða fóstureyðingar. Niðurstöðurnar sýndu að viðhorf til málefnanna þriggja voru mismunandi en bentu jafnframt til þess að hugtakanotkun skipti ekki miklu máli í þessu samhengi. Lítill og ómarktækur munur var á viðhorfum svarenda til lögleiðingar spilahalla eða spilavíta, sem og til laga um þungunarrof eða fóstureyðingar (tengslin voru frekar í öfuga átt við það sem spáð var), en marktækur munur kom fram á viðhorfum svarenda sem studdu frekar setningu veggjalda en vegtolla. Niðurstöðurnar benda til þess að útbreiðsla hugtaka og hugtakalæsi almennings skipti máli í þessu samhengi.

Efnisorð


Félagsfræði þekkingar; orðræðugreining; viðmiðabinding; hugtakalæsi.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2020.16.2.2

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.