Áhrif orðalags á svör við spurningum Stjórnlagaráðs
Útdráttur
Rannsóknin sneri að því að meta eiginleika spurninga Stjórnlagaráðs sem lagðar voru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Skilningur fólks á innihaldi spurninganna var kannaður með ítarviðtölum við 60 viðmælendur. Einnig var kannað með spurningakannanatilraun hvort mismunandi orðalag spurninga hefði áhrif á svör þátttakenda. Þar var kannað a) hvaða áhrif það hefði á svörun að breyta spurningunum á þann hátt að þær fælu í sér óbreytt ástand í stað breytinga (og öfugt í einu tilfelli) og b) hvaða áhrif það hefði að breyta forskeyti spurninganna í „ert þú mótfallin(n)“ í stað „vilt þú“. Netkönnun með báðum útgáfum spurninganna auk upprunalegs orðalags var send á háskólanema (n=209) og deilt á samfélagsmiðlum (n=528). Tilgátur rannsóknarinnar voru tvær, fyrsta tilgátan var sú að fólk væri líklegra til þess að vera samþykkt óbreyttu ástandi þegar spurningin fól ekki í sér breytingar. Önnur tilgátan var sú að fólk væri ólíklegra til þess að láta í ljós samþykki á málefni spurningar með því að vera ósamþykkt neikvætt orðaðri spurningu heldur en að vera samþykkt jákvætt orðaðri spurningu. Niðurstöður sýndu að munur fannst á svörum þátttakenda í tveimur spurningum Stjórnlagaráðs í úrtaki háskólanema og þremur spurningum í samfélagsmiðlaúrtaki þegar áhrif þess að spurningin fæli í sér óbreytt ástand voru skoðuð. Áhrif þess að nota neikvætt orðað forskeyti fannst í tveimur spurningum Stjórnlagaráðs í samfélagsmiðlaúrtaki en ekki í úrtaki háskólanema.
Efnisorð
Spurningar Stjórnlagaráðs; orðalag spurninga; breytt/óbreytt ástand; neikvætt orðaðar spurningar; ítarviðtöl.
Heildartexti:
PDFDOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2020.16.2.6
Baktilvísanir
- Engar baktilvísanir
Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.
Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.