Áhrif orðalags á svör við spurningum Stjórnlagaráðs

Vaka Vésteinsdóttir, Ragnhildur Lilja Ásgeirsdóttir, Vera Óðinsdóttir, Snæfríður Birta Björgvinsdóttir, Helena Ólafsdóttir, Eyney Ösp Gunnarsdóttir, Fanney Þórsdóttir

Útdráttur


Rannsóknin sneri að því að meta eiginleika spurninga Stjórnlagaráðs sem lagðar voru fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 20. október 2012. Skilningur fólks á innihaldi spurninganna var kannaður með ítarviðtölum við 60 viðmælendur. Einnig var kannað með spurningakannanatilraun hvort mismunandi orðalag spurninga hefði áhrif á svör þátttakenda. Þar var kannað a) hvaða áhrif það hefði á svörun að breyta spurningunum á þann hátt að þær fælu í sér óbreytt ástand í stað breytinga (og öfugt í einu tilfelli) og b) hvaða áhrif það hefði að breyta forskeyti spurninganna í „ert þú mótfallin(n)“ í stað „vilt þú“. Netkönnun með báðum útgáfum spurninganna auk upprunalegs orðalags var send á háskólanema (n=209) og deilt á samfélagsmiðlum (n=528). Tilgátur rannsóknarinnar voru tvær, fyrsta tilgátan var sú að fólk væri líklegra til þess að vera samþykkt óbreyttu ástandi þegar spurningin fól ekki í sér breytingar. Önnur tilgátan var sú að fólk væri ólíklegra til þess að láta í ljós samþykki á málefni spurningar með því að vera ósamþykkt neikvætt orðaðri spurningu heldur en að vera samþykkt jákvætt orðaðri spurningu. Niðurstöður sýndu að munur fannst á svörum þátttakenda í tveimur spurningum Stjórnlagaráðs í úrtaki háskólanema og þremur spurningum í samfélagsmiðlaúrtaki þegar áhrif þess að spurningin fæli í sér óbreytt ástand voru skoðuð. Áhrif þess að nota neikvætt orðað forskeyti fannst í tveimur spurningum Stjórnlagaráðs í samfélagsmiðlaúrtaki en ekki í úrtaki háskólanema.

Efnisorð


Spurningar Stjórnlagaráðs; orðalag spurninga; breytt/óbreytt ástand; neikvætt orðaðar spurningar; ítarviðtöl.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2020.16.2.6

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir




        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.