Stefnuyfirfærsla: Áhrif Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) á stefnumótun á Íslandi

Pétur Berg Matthíasson

Útdráttur


Alþjóðastofnanir á borð við Efnahags- og framfarastofnunina (OECD), Sameinuðu þjóðirnar (SÞ), Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) og Alþjóðabankann eru þekktar fyrir að standa að baki útbreiðslu hugmynda, gilda og stefnumála um heim allan. Á 10. áratugnum jókst áhugi fræðimanna á viðfangsefni sem kallað er hér stefnuyfirfærsla (e. policy transfer). Tilraunir fræðimanna fólust m.a. í því að setja ramma utan um nálgunina og skýra af hverju yfirfærsla á sér stað, við hvaða aðstæður, á hvaða stigi o.s.frv. Fátt hefur verið meira rannsakað innan stjórnsýslufræðanna undanfarna áratugi erlendis en viðfangsefnið hefur lítið borið á góma hér á landi. Þrátt fyrir mikinn áhuga á viðfangsefninu alþjóðlega hefur nálgunin verið gagnrýnd þar sem hún er m.a. talin vera of lýsandi og kenningarlega veik. Hafa ekki embættismenn og stjórnmálamenn stolið hugmyndum frá hvor öðrum í aldir? Í ár verður Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) 60 ára. Ísland er eitt af stofnaðildarríkjunum og því kominn tími til að rýna þetta langa samstarf sem íslensk stjórnsýsla hefur átt við OECD. Tilgangur þessarar greinar er að fjalla um starfsemi OECD og meta áhrif hennar á íslenska stefnumótun. Í fyrsta hluta greinarinnar er annars vegar fjallað um forvera OECD sem var Efnahagssamvinnustofnun Evrópu (OEEC) og hvernig hún lagði grunninn að því hvernig OECD starfar í dag. Hins vegar er farið ítarlega yfir hlutverk og skipulag OECD og þær áskoranir sem stofnunin hefur staðið frammi fyrir á undanförnum áratugum. Í öðrum hluta er aðferðin stefnuyfirfærsla skoðuð nánar. Aðferðin er skilgreind auk þess sem fjallað er um helstu leikendur. Tilraun er gerð til að ramma inn helstu afbrigði stefnuyfirfærslna og rætt er um sjálfviljuga og þvingaða yfirfærslu. Að lokum er fjallað um þátttöku Íslands á vettvangi OECD. Til að meta að hvaða leyti íslensk stjórnvöld nýta sér afurðir OECD við stefnumótun hér á landi er stuðst við gögn úr árangurskönnunum stofnunarinnar.

Efnisorð


OECD; stefnuyfirfærsla; stefnumótun; stofnun; afurðir.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2021.17.1.2

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.