Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi: Sjálfræðisréttur skjólstæðinga, vanlíðan vegna frávika og traust innan heilbrigðisþjónustu

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Auður Hermannsdóttir

Útdráttur


Traust skjólstæðinga gagnvart heilbrigðisstéttum og heilbrigðisstofnunum er forsenda gæða innan heilbrigðisþjónustu. Traust snýr að tiltrú sjúklings um að hagsmunir hans séu hafðir að leiðarljósi og vanmáttur hans sé ekki misnotaður. Almennt vænta sjúklingar þess að sjálfræði þeirra sé virt, en í því felst að sjúklingi sé gert kleift að taka sjálfstæðar ákvarðanir varðandi meðferðir og inngrip. Erlendar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að frávik frá rétti sjúklinga til sjálfræðis eru nokkuð algeng innan heilbrigðisþjónustu. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvað ákvarði traust til heilbrigðisþjónustu. Í því skyni var kannað hvort upplifun af atvikum sem snúa að frávikum frá rétti til sjálfræðis sé líkleg til að draga úr trausti skjólstæðinga innan heilbrigðisþjónustu. Í rannsókninni var sjónum sérstaklega beint að skjólstæðingum Kvennadeildar Landspítalans. Notast var við rafrænt hentugleikaúrtak þar sem skilyrði fyrir þátttöku var reynsla af þjónustu Kvennadeildar. Niðurstöðurnar sýndu að þeir skjólstæðingar sem hafa upplifað frávik frá rétti til sjálfræðis bera minna traust til heilbrigðisstarfsfólks og hafa meira vantraust gagnvart Landspítalanum heldur en þeir sem ekki hafa upplifað slík atvik. Jafnframt sýndu niðurstöðurnar að vanlíðan vegna fráviks frá rétti til sjálfræðis ýti undir vantraust gagnvart Landspítalanum en að það traust sem skjólstæðingar bera til lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra geti spornað við myndun slíks vantrausts. Niðurstöðurnar gefa því tilefni til að ætla að góð samskipti og upplýsingagjöf til sjúklinga, þannig að þeir skynji að hagsmuna þeirra sé gætt og réttur þeirra virtur, sé líkleg til að ýta undir traust til heilbrigðisþjónustu. Aukið traust er líklegt til að stuðla að auknum gæðum, draga úr kostnaði og auka virði heilbrigðisþjónustu.

Efnisorð


Traust; þjónustugæði; réttur til sjálfræðis; heilbrigðisþjónusta.

Heildartexti:

PDF


DOI: https://doi.org/10.13177/irpa.a.2022.18.1.6

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.