Evrópuvæðing Íslands

Eiríkur Bergmann

ÚtdrátturÍsland er eina ríki Norðurlanda sem aldrei hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og telst þeirra tregast í taumi í Evrópusamvinnunni. Eigi að síður hefur Evrópusamruninn haft afgerandi áhrif á þróun íslensks þjóðfélags í gegnum aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Fyrst og fremst með almennri frelsisvæðingu atvinnulífsins sem losað var undan oki margvíslegra hafta, en einnig með stórauknu samstarfi við Evrópuþjóðir á ýmsum sviðum, svo sem í viðskiptum, vísindum, menntun og á menningarsviðinu. Áhrif Evrópusamvinnunnar teygja sig núorðið til flestra sviða þjóðfélagsins og hafa leitt til grundvallarbreytingar á íslenskri þjóðfélagsgerð, til að mynda hvað varðar umhverfisvernd, matvælaeftirlit og vinnuréttarmál svo dæmi séu tekin af nokkrum ólíkum sviðum. Að auki tekur Ísland nú fullan þátt í Schengen-landamærasamstarfi ESB og Dyflinar-samkomulaginu svokallaða með sérstöku samkomulagi sem gert var við Ísland og Noreg. Það gefur því augaleið að ein frumforsenda þess að skilja þróun íslensks samfélags undanfarin ár felst í að rannsaka og skoða hvernig Evrópuvæðingin hefur haft áhrif hér á landi. Þetta hefur því miður verið vanrækt mjög, en svo virðist sem þraskennt stappið um hugsanlega Evrópusambandsaðild hafi í raun komið í veg fyrir að áhrif Evrópuvæðingarinnar á íslenskt samfélag hafi verið rannsökuð með kerfisbundnum hætti. Þess í stað hafa sumir stjórnmálamenn frekar viljað draga upp þá mynd af stöðu okkar í Evrópusamrunann sem hentar þeirra eigin afstöðu til ESB-aðildar.

Heildartexti:

PDF

Baktilvísanir

  • Engar baktilvísanir
        

Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.