Stutt athugasemd við grein Salvarar Nordal í Stjórnmálum og stjórnsýslu, 1. tbl. 2014
Útdráttur
Úr inngangi:
Ég hef ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við fræðilega greiningu Salvarar Nordal í greininni "Ábyrgð, stofnanir og íslensk stjórnsýsla. Lærdómar af bankahruni" sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla, 1. tbl. 10. árg. 2014. Í greininni velur hún tvö dæmi til sérstakrar umfjöllunar. Þau eru sótt í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og varða annars vegar störf samráðshóps um fjármálastöðugleika og hins vegar viðlagaæfingu haustið 2007. Skýrsla rannsóknarnefndar endurspeglar annars vegar álit þeirra sem í nefndinni sátu og hins vegar álit þeirra sem hún ræddi við. Þar með er ekki sagt að allt sem í skýrslunni stendur sé rétt né að allir séu um það sammála.
Sjálfur sat ég í samráðshópnum og tel að störf hans hafi hlotið óréttmæta gagnrýni í skýrslu Rannsóknarnefndar. Samkvæmt skipunarbréfi var hópnum ætlað að vera vettvangur upplýsinga- og skoðanaskipta. Hann skyldi vera ráðgefandi og ekki taka ákvarðanir um aðgerðir. Í mínum huga var hópurinn mjög mikilvægur samráðsvettvangur stofnananna sem aðild áttu að honum. Nefndin gefur í skyn að þröngsýni einstakra embættismanna og togstreita á milli stofnana hafi valdið vandræðum í starfi hópsins. Í mínum huga tóku allir þátt í starfi hans af fyllstu einlægni, ábyrgð, áhuga og samviskusemi og rangt er að gefa nokkuð annað í skyn. Um þetta vitna fundargerðir nefndarinnar sem reyndust mikilvægar fyrir starf nefndarinnar.
Heildartexti:
PDFBaktilvísanir
- Engar baktilvísanir
Útgefandi er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.
Kerfið er vistað af Reiknistofnun Háskólans.