Hvað býður Evrópa? Um varnarþarfir Íslands og öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins

Authors

  • Auðunn Arnórsson

DOI:

https://doi.org/10.13177/irpa.b.2006.2.2.2

Abstract

Þann 30. september 2006 urðu mikil tímamót í sögu íslenzka lýðveldisins. Á þessum milda haustdegi yfirgáfu síðustu bandarísku hermennirnir landið eftir látlausa athöfn á Keflavíkurflugvelli, rúmum 65 árum eftir að þeir tóku sér fyrst stöðu hérlendis samkvæmt samningum um að þeir sæju Íslendingum fyrir "hervernd". Þremur dögum áður hafði ríkisstjórnin kynnt fyrir þjóðinni nýtt samkomulag við Bandaríkjastjórn um breytt fyrirkomulag varnarsamstarfs landanna á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Forsætisráðherra fullyrti þá að nýja samkomulagið, sem kveður meðal annars á um að Bandaríkjamenn séu eftir sem áður skuldbundnir til varna Íslands en muni framvegis gera það með "hreyfanlegum vörnum" í stað fastrar viðveru herliðs hér á landi, tryggði varnarhagsmuni landsins vel. Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Riga í lok nóvember vakti Geir H. Haarde forsætisráðherra aftur á móti athygli á því að eftir brottför varnarliðsins væri Ísland eina ríkið innan NATO, þar sem ekkert eftirlit væri í lofti eða viðbúnaður á friðartímum. Í ræðunni í Riga vísaði Geir til þess að nýja samkomulagið við Bandaríkin tæki aðeins til varnarviðbúnaðar á hættutímum, en eftir stæði þörfin fyrir eftirlit og viðbúnað á friðartímum. "Loftrými bandalagsins er skilgreint sem ein heild og þess vegna er þetta ekki bara okkar mál," sagði ráðherrann. Betri viðbúnaðar væri þörf á friðartímum, einkum til að halda uppi fullnægjandi eftirliti í lofthelginni. Því myndu íslenzk stjórnvöld bera málið upp til umræðu í Norður-Atlantshafsráðinu, fastaráði bandalagsins. Ennfremur hefur ríkisstjórnin leitað eftir viðræðum við einstaka NATO-bandamenn, sérstaklega Noreg og Danmörku, til að ræða hvernig bandalagið og viðkomandi grannþjóðir geta orðið Íslendingum að liði við að bæta úr þessu og tryggja öryggi landsins til framtíðar. Í umræðum um hvaða leiðir Íslendingum standi til boða í þessu sambandi hefur sú spurning gjarnan komið upp, hvað Evrópa hafi upp á að bjóða. Þannig var til dæmis yfirskrift fundar sem Samtök um vestræna samvinnu og Varðberg efndu til með enskum hermálasérfræðingi í byrjun nóvember þessi: "Öryggis- og varnarþörf Íslands: Er Evrópa svarið?" Enski fyrirlesarinn, Richard Holmes frá öryggis- og varnarmáladeild Cranfield-háskóla, svaraði þessari spurningu reyndar ekki, að öðru leyti en því að hann líkti samkomulaginu sem Íslendingar hefðu nú við Bandaríkjamenn við belti, sem væri gott að hafa til að missa ekki niður um sig buxurnar. En þar sem um öryggi lands og þjóðar væri að tefla teldi hann ráðlegt að hafa axlabönd líka, og þau þyrftu Íslendingar að sækja sér með efldu varnarsamstarfi við næstu grannþjóðirnar í Evrópu. Auk þess að leggja meira af mörkum sjálfir til að tryggja eigið öryggi. Hér verður gerð tilraun til að svara þessari spurningu betur og sjónum einkum beint að því sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða og þróun öryggis- og varnarmálastefnu ESB rakin og metin.

Author Biography

Auðunn Arnórsson

MA í sagnfræði og stjórnmálafræði og D.E.E.A í Evrópufræðum.

Published

2006-12-15

How to Cite

Arnórsson, A. (2006). Hvað býður Evrópa? Um varnarþarfir Íslands og öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins . Icelandic Review of Politics & Administration, 2(2). https://doi.org/10.13177/irpa.b.2006.2.2.2

Issue

Section

Articles and speeches