Að eiga frjálst val um framhaldsskóla
Markaðsvæðing innritunar nýnema í íslenskum framhaldsskólum
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2024.2Lykilorð:
framhaldsskólar, markaðsvæðing, skólaval, félagslegt réttlæti, dreifstýringÚtdráttur
Árið 1998 tók Menntamálaráðuneytið ákvörðun um að framhaldsskólanám ætti að verða „einn námsmarkaður“ í landinu öllu. Þar með var vikið frá fyrri stefnu um hverfaskiptingu framhaldsskólanna. Tilgangur breytingarinnar var að gera nýnemum kleift að velja sér hvaða skóla sem væri og var talið að brotthvarf myndi minnka og metnaður bæði í námi og kennslu aukast þegar nemendur yrðu innritaðir á grundvelli einkunna úr grunnskóla. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna afleiðingar upptöku markaðsfyrirkomulags á skólavali fyrir nýnema í framhaldsskólum og voru settar fram þrjár rannsóknarspurningar: 1) Hver hafa áhrif markaðsvæðingar innritunarferlisins verið? 2) Hvaða munur kemur fram milli nemendahópa og milli skóla í umsóknarferlinu við innritun í framhaldsskóla? og loks 3) Hvernig má skilja niðurstöðurnar í ljósi hugmynda um félagslegt réttlæti? Aðferðafræði rannsóknarinnar er greining á tölfræðigögnum frá Innu og innritunargögnum frá Flensborgarskólanum. Gögnin frá Innu sýna heila árganga og mynstur í umsóknum um framhaldsskóla eftir tíunda bekk. Innritunargögnin úr Flensborg voru kóðuð svo hægt væri að fylgja eftir einstaklingum í gegnum kerfið en engum persónugreinanlegum upplýsingum var safnað. Niðurstöðurnar sýna að ákveðinn hópur framhaldsskóla hefur sterka stöðu á skólamarkaðnum þar sem þeir hljóta stóran hluta umsókna frá nemendum með háar einkunnir. Það þýðir að sumir skólar eiga þann kost að velja til inntöku nemendur sem styrkir síðan aftur samkeppnisstöðu þeirra. Samtímis sýna gögn Flensborgarskólans að aðrir skólar eru í lakari samkeppnisstöðu og þurfa að taka inn stærri hluta nemenda með lægri einkunnir og flóknari þarfir fyrir stuðning. Ályktun höfunda er að ábyrgðin á námi framhaldsskólanemenda hafi að hluta verið færð frá hinu opinbera yfir á val nemendanna. Einnig er bent á að þótt stjórnvöld geti sagt að stór hluti nemenda (95%) fái annaðhvort fyrsta eða annað val sitt, þá sé ýmislegt sem bendi til að nemendur velji skóla mjög ígrundað út frá möguleikum um innritun.
##plugins.themes.default.displayStats.downloads##
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2024 Magnús Þorkelsson, Gunnlaugur Magnússon

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).
