Mat á gæðum kennslu í hugsandi skólastofu í stærðfræði á framhaldsskólastigi

Rýnt í kennslu framhaldsskólakennara

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2025/2

Lykilorð:

hugsandi skólastofa, gæði kennslu, stærðfræðimenntun, stærðfræðikennsla, framhaldsskóli, skólastofurannsókn

Útdráttur

Hugsandi skólastofa (e. thinking classroom) er kennslunálgun sem snýst um að skapa rými þar sem nemendur vinna saman að verkefnum sem eru hönnuð til að styðja nemendur við að öðlast skilning á nýjum hugtökum og hugmyndum með samræðum. Í þessari rannsókn var fylgst með kennslu eins stærðfræðikennara í íslenskum framhaldsskóla. Markmið rannsóknarinnar var að veita kennaranum endurgjöf á gæði eigin kennslu þegar kennt er eftir hugmyndafræði hugsandi skólastofu og veita innsýn í sjálfsrýni hans um niðurstöðurnar.

Gögnum var safnað með hljóðupptökum og áhorfi í þremur kennslustundum þar sem einum nemendahóp var fylgt eftir í eina kennsluviku. Gæði kennslunnar voru metin út frá greiningarrammanum PLATO fyrir yfirþættina faglegar kröfur (þ.e. samræður í skólastofunni og vitsmunaleg áskorun) og stigskiptan stuðning (þ.e. sýnikennsla, kennsla námsaðferða og endurgjöf). Helstu niðurstöður voru að í kennslustundunum voru faglegar kröfur almennt metnar á efri þrepum á meðan undirþættir stigskipts stuðnings voru metnir á bæði efri og neðri þrepum. Dæmi voru um sýnikennslu og kennslu námsaðferða á efsta þrepi, en endurgjöf var aldrei metin á efsta þrepi.

Niðurstöðurnar sýna fram á að í íslensku samhengi er hægt að nota aðferðir hugsandi skólastofu til að búa til menningu þar sem nemendur vinna í sameiningu að krefjandi viðfangsefnum sem reyna á greinandi hugsun. Kennari hefur svigrúm til að biðja um rökstuðning og útskýringar. Það gefur nemendum tækifæri til að dýpka skilning sinn á verkefninu og lausnaferlinu. Samræður byggja á svörum nemenda og hafa þau tækifæri til að útskýra, segja frá og beita virkri hlustun. Hugsandi skólastofa virðist gefa tækifæri til að veita nemendum endurgjöf sem kennarinn hefði þó getað nýtt sér betur. Niðurstöður gefa einnig til kynna að hópumræða eftir vinnu og glímu nemenda við stærðfræðihugtök skapi aðstæður til sýnikennslu á efstu þrepum og sé heppilegri heldur en að hugtökin séu kynnt fyrir nemendum áður en þau vinna með þau

Um höfund (biographies)

  • Eyþór Eiríksson

    Eyþór Eiríksson (eythor.eiriksson@mk.is) er stærðfræðikennari og hefur unnið við framhaldsskóla frá árinu 2020. Hann lauk M.Sc. í menntun framhaldsskólakennara árið 2022 frá Háskóla Íslands. Meistararitgerð hans var starfendarannsókn um hugsandi skólastofu. Áður kláraði hann B.Sc. í stærðfræði og stærðfræðimenntun frá Háskóla Íslands. Hann hefur frá árinu 2022 kennt samkvæmt hugmyndafræði hugsandi skólastofu

  • Jóhann Örn Sigurjónsson, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu

    Jóhann Örn Sigurjónsson (johannorn@midstodmenntunar.is) er sérfræðingur í stærðfræðimenntun við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Hann lauk doktorsprófi í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2023 og hefur þaðan einnig menntun á sviði faggreinakennslu og tölvunarfræði. Rannsóknarsvið hans beinist að þróun stærðfræðikennslu, notkun námsefnis, námsmati í stærðfræði og gæðaþáttum í kennslu á borð við hugræna virkjun og stuðning við nám

Niðurhal

Útgefið

2025-02-26

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar