Ísabrot

Listasmiðjur um jökla í Listasafni Íslands

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2025/7

Lykilorð:

loftslagsbreytingar, safnafræðsla, sjálfbærnimenntun, sköpun, þverfaglegt nám

Útdráttur

Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar á þeim menntunartækifærum sem fólust í verkefninu Ísabrot. Verkefnið byggði á þverfaglegum listasmiðjum í Listasafni Íslands, með styrk frá Barnamenningarsjóði. Níu skólar tóku þátt í verkefninu þar sem listamenn héldu listasmiðjur tengdar jöklum, út frá fjölbreyttum sjónarhornum.

Opin viðtöl voru tekin við starfsfólk safnsins og 6 kennara á ólíkum skólastigum sem tóku þátt í verkefninu með sínum nemendum. Viðmælendur vörpuðu ljósi á hvernig smiðjurnar og þjálfun í myndlæsi vöktu áhuga nemenda á jöklum, myndlist og sjálfbærni.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að söfn eru kjörinn vettvangur þverfaglegs náms. Listamennirnir reyndust ákjósanlegar fyrirmyndir sem kynntu málefnið út frá nýju sjónarhorni. Helstu áskoranir sem komu fram voru oft á tíðum ósveigjanlegt tímaskipulag skólanna, einkum hjá eldri nemendum, ásamt takmörkuðu svigrúmi kennara til að breyta dagskrá. Ferðalög með almenningssamgöngum voru einnig áskorun þar sem þau tóku oft langan tíma og samræmdust illa stundatöflum nemenda, sem dró stundum úr dýpt heimsóknanna. Viðmælendur voru allir sammála um að verkefnið tengdist vel grunnstoðum menntunar og töldu þau líklegt að þeir myndu nýta sér reynsluna í framtíðinni. Ljóst er að það er almennt hagur fyrir nemendur að taka þátt í því metnaðarfulla safnastarfi sem fræðslusérfræðingar Listasafns Íslands bjóða upp á. Listræn nálgun getur varpað fjölbreyttu ljósi á íslenska jökla og þannig glætt áhuga nemenda á málefnum sjálfbærni.

Um höfund (biographies)

  • Ásthildur Jónsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Dr. Ásthildur Jónsdóttir (astajons@hi.is) er sjálfstætt starfandi fræðimaður og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í hlutastarfi. Ásthildur lauk doktorsgráðu í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2017 og doktorsgráðu í myndlist frá Lapplandsháskóla í Finnlandi sama ár með áherslu á sjálfbærnimenntun. Hún lauk MA-gráðu frá New York háskóla, Steinhardt School of Culture, Education, and Human Development árið 2007 með áherslu á fjölmenningu og MEd-gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum frá Kennaraháskóla íslands árið 2003 með áherslu á tölvu- og upplýsingatækni í sjónlistarkennslu. Ásthildur lauk BEd-gráðu í kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 með áherslu á sjónlistarkennslu. Ásthildur sýningarstýrði sýningunni Viðnám í Listasafni Íslands. Hún hefur rekið verkefnið LÁN (listrænt ákall til náttúrunnar) frá árinu 2015

  • Hanna Ólafsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Hanna Ólafsdóttir (hannao@hi.is) er lektor í listgreinum og oddviti kjörsviðsins Sjónlistir á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1994 og Danmarks Designskole árið 1996. Árið 2011 lauk hún meistaraprófi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Í störfum sínum tengir hún saman listsköpun og listkennslufræði með áherslu á listrænar rannsóknir, samstarfsverkefni, listræn ferli og miðlun. Hún leggur sérstaka áherslu á fræðilegar forsendur félagslega gagnrýninnar listkennslu, þar sem fagurfræði, þverfaglegar og þvermenningarlegar nálganir eru í forgrunni. Undanfarin ár hefur hún þróað ný námskeið á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem lögð er áhersla á tengsl safna og menntunar. Hanna hefur einnig tekið virkan þátt í alþjóðlegum samstarfsnetum listgreinakennara.

  • Ragnheiður Vignisdóttir, Listasafn Íslands

    Ragnheiður Vignisdóttir (ragnheidur.vignisdottir@listasafn.is) starfar sem fræðslu- og útgáfustjóri hjá Listasafni Íslands. Hún lauk BA-prófi í listfræði frá Háskóla Íslands með skiptinámi frá Sorbonne-háskóla í París. Ragnheiður er með diplómu í hagnýtri menningarmiðlun og MA-próf í ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hún hefur leitt stór verkefni á sviði fræðslumála við listasafnið, tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum og er einn af höfundum námsefnisins Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi. Ragnheiður hefur stýrt og átt frumkvæðið að ýmsum fræðsluverkefnum sem nú eru hluti af fastri starfsemi Listasafns Íslands, s.s. Krakkaklúbbnum Krumma, Gæðastundum fyrir eldri borgara og Sjónarafli – þjálfun í myndlæsi.

Niðurhal

Útgefið

2025-05-15

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)