Leikskóli fyrir öll börn: Valdefling foreldra og deildarstjóra

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2025/14

Lykilorð:

valdefling foreldra, leikskóli fyri öll börn, inngildandi menntun, foreldrasamstarf, ábyrgð deildarstjóra

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar sem hér er til umfjöllunar var að styrkja stöðu foreldra barna sem þurfa sérhæfðan stuðning í leikskóla, með áherslu á teymisfundi og samskipti foreldra og deildarstjóra. Tilgangurinn var að efla og styðja við inngildandi menntun í leikskólum. Rannsóknin fór fram í tveimur leikskólum í Reykjavík yfir þriggja ára tímabil. Þátttakendur voru deildarstjórar, sérkennslustjórar og stjórnendur leikskólanna auk verkefnastjóra frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og tveggja rannsakenda við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Tekin voru viðtöl við þátttakendur í upphafi og lok verkefnis og skráðu þeir hjá sér og kynntu framvindu verkefnisins meðan á því stóð. Einnig voru tekin viðtöl við tvo foreldra í báðum leikskólum. Í upphafi verkefnisins kom fram að foreldrar voru oft valdalausir á teymisfundum þar sem sérfræðingar stýrðu umræðunni, en foreldrar sátu hjá sem óvirkir hlustendur. Þátttakendur unnu við að breyta þessu með því að þróa skipulag teymisfunda, þar sem foreldrar fengu meira rými til að tjá sig og taka virkan þátt í ákvarðanatöku. Þá var lögð áhersla á aukna þátttöku deildarstjóra á teymisfundum til að styrkja ábyrgð þeirra á námi og líðan allra barna á deildinni. Með þessu fyrirkomulagi urðu deildarstjórar virkari í samstarfi við foreldra og höfðu betri yfirsýn á stöðu allra barna í sínum hópi. Jafnframt stuðlaði þessi breyting að því að börn sem voru í viðkvæmri stöðu voru síður aðskilin frá barnahópnum, þar sem deildarstjórar tóku aukna ábyrgð á menntun þeirra og velferð innan daglegs skólastarfs. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi virkrar þátttöku foreldra í námi barna sinna og nauðsyn þess að styðja við faglega þróun starfsfólks til að tryggja að allir leikskólar séu raunverulega fyrir öll börn.

Um höfund (biographies)

  • Anna Magnea Hreinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir (amh@hi.is) er lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún var leikskólastjóri til margra ára, leikskólafulltrúi og fræðslustjóri. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum innlendum og alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og veitt skólum ráðgjöf. Rannsóknir hennar tengjast forystu og stjórnun, námskrárgerð og innra mati leikskóla með áherslu á lýðræðislega starfshætti. Þá hefur hún lagt áherslu á sjónarmið og þátttöku barna í rannsóknum sínum. Hún er formaður Félags um menntarannsóknir.

  • Jóhanna Einarsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Dr. Jóhanna Einarsdóttir (joein@hi.is) er prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún er einnig heiðursdoktor við Háskólann í Oulu í Finnlandi. Jóhanna hlaut viðurkenningu frá Háskólanum í Illinois fyrir framlag sitt til rannsókna á menntun ungra barna. Sérsvið hennar eru rannsóknir með börnum, samfella í námi barna og starfendarannsóknir. Hún hefur verið þátttakandi í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum bæði sem rannsakandi og ráðgjafi og hefur ritað fjölda fræðigreina í samstarfi við erlenda kollega. Hún situr í stjórn European Early Childhood Education Research Association.

Niðurhal

Útgefið

2025-09-05

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)

1 2 3 > >>