Kunna öll börn stafahljóðin í upphafi 2. bekkjar?

Áhrif sumarfrís, móðurmáls, kyns og stafaþekkingar við upphaf grunnskóla

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2025/15

Lykilorð:

stafahljóðaþekking, sumaráhrif, lestrarkennsla, lestrarnám, hljóðaaðferð

Útdráttur

Í þessari rannsókn var þekking nemenda á stafahljóðum við lok 1. bekkjar og upphaf 2. bekkjar borin saman og greind eftir mögulegum áhrifaþáttum. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 291 nemandi í 1. bekk við upphaf rannsóknar í sjö skólum á höfuðborgarsvæðinu; 135 drengir og 156 stúlkur. Flestir nemendur (n = 239) höfðu íslensku sem móðurmál, en 52 voru með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT). Fimmtungur nemenda (n = 57) voru taldir eiga í hættu að lenda í lestrarvanda, byggt á mati við upphaf skólagöngu. Þekking á stafahljóðum var skoðuð hjá hópnum í heild og einnig eftir kyni nemenda, hvort þeir hefðu íslensku sem fyrsta eða annað mál og áhættu á lestrarvanda. Gagna var aflað í maí við lok 1. bekkjar og september við upphaf 2. bekkjar. Gagnaöflun fór fram einstaklingslega, í hverjum skóla fyrir sig, sem hluti af stærri langtímarannsókn í umsjón dr. Önnu-Lindar Pétursdóttur (með Rannís-styrk nr. 207216-051). Í þessari rannsókn var unnið úr gögnum um þekkingu nemenda á hljóðum allra bókstafa og tvíhljóða íslenska stafrófsins. Niðurstöður sýndu að þekking nemenda á stafahljóðum var afar mismunandi, allt frá 1 til 35 stafahljóða við lok 1. bekkjar og frá 4 til 35 stafahljóða við upphaf 2. bekkjar. Hlutfallslega skorti mörg börn þekkingu á hljóðum algengra bókstafa og ekkert stafahljóð sem allir nemendur þekktu við upphaf 2. bekkjar. Nemendur með íslensku sem annað mál og nemendur í áhættuhópi höfðu að meðaltali slakari stafahljóðaþekkingu en jafnaldrar, en ekki mældist munur eftir kyni. Ekki mældist marktæk afturför milli 1. og 2. bekkjar, hvorki hjá hópnum í heild né með tilliti til kyns, móðurmáls eða stafaþekkingar í upphafi grunnskóla. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að nauðsynlegt sé að bregðast við og tryggja að öll börn læri hljóð allra bókstafa til að eiga möguleika á að þróa lestrarfærni sína. Það er von höfunda að niðurstöður nýtist við að efla lestrarkennslu byrjenda í lestri, þannig að fyrirbyggja megi vaxandi lestrarerfiðleika vegna skorts á undirstöðufærni

Um höfund (biographies)

  • Jóhanna María Bjarnadóttir

    Jóhanna María Bjarnadóttir (jmb15@hi.is) lauk B.Ed.-prófi í grunnskólakennslu yngri barna árið 2023 og í framhaldinu meistaraprófi í grunnskólakennslu yngri barna M.Ed. vorið 2025. Hún starfar sem umsjónarkennari í grunnskóla. Grein þessi byggir á B.Ed.- verkefni Jóhönnu Maríu og Guðrúnar Lilju.

  • Guðrún Lilja Kristófersdóttir

    Guðrún Lilja Kristófersdóttir (glk3@hi.is) lauk B.Ed -prófi í grunnskólakennslu yngri barna vorið 2023. Hún starfar sem hópstýra á leikskóla. Grein þessi byggir á B.Ed.-verkefni Guðrúnar Lilju og Jóhönnu Maríu.

  • Auður Soffíu Björgvinsdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Dr. Auður Soffíu Björgvinsdóttir (audurbjorgvins@hi.is) er aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk B.Ed.-prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005, meistaraprófi í menntavísindum með áherslu á lestrarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2017 og doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2025. Rannsóknir hennar beinast að þróun lestrarfærni, lestrarkennslu og leiðum til að bæta læsi.

  • Anna-Lind Pétursdóttir, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Dr. Anna-Lind Pétursdóttir (annalind@hi.is) er prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996, embættisprófi í sálfræði frá sama skóla árið 2001 og doktorsprófi í sérkennslufræðum frá Minnesota-háskóla árið 2006. Rannsóknir hennar hafa beinst að úrræðum vegna frávika í þroska, námi eða hegðun barna og þjálfun starfsfólks í beitingu þeirra úrræða.

  • Amelia Jara Larimer, Háskóli Íslands - Menntavísindasvið

    Amelia Jara Larimer (ajl9@hi.is) er doktorsnemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún lauk BA-prófi í sálfræði frá University of Wisconsin Madison árið 2007 og MA-prófi í Speech, Language and Hearing Sciences frá University of Colorado Boulder 2009. Amelia tekur þátt í rannsókn á PALS á Íslandi og beinast hennar rannsóknir að lestrarþróun í 1. og 2. bekk með áherslu á fjöltyngd börn. Áður en hún flutti til Íslands starfaði hún í 10 ár í opinberum skólum í Bandaríkjunum, fyrst sem talmeinafræðingur og síðar sem forstöðumaður sérkennslu.

Niðurhal

Útgefið

2025-09-10

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar