Kunna öll börn stafahljóðin í upphafi 2. bekkjar?
Áhrif sumarfrís, móðurmáls, kyns og stafaþekkingar við upphaf grunnskóla
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/netla.2025/15Lykilorð:
stafahljóðaþekking, sumaráhrif, lestrarkennsla, lestrarnám, hljóðaaðferðÚtdráttur
Í þessari rannsókn var þekking nemenda á stafahljóðum við lok 1. bekkjar og upphaf 2. bekkjar borin saman og greind eftir mögulegum áhrifaþáttum. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 291 nemandi í 1. bekk við upphaf rannsóknar í sjö skólum á höfuðborgarsvæðinu; 135 drengir og 156 stúlkur. Flestir nemendur (n = 239) höfðu íslensku sem móðurmál, en 52 voru með íslensku sem annað tungumál (ÍSAT). Fimmtungur nemenda (n = 57) voru taldir eiga í hættu að lenda í lestrarvanda, byggt á mati við upphaf skólagöngu. Þekking á stafahljóðum var skoðuð hjá hópnum í heild og einnig eftir kyni nemenda, hvort þeir hefðu íslensku sem fyrsta eða annað mál og áhættu á lestrarvanda. Gagna var aflað í maí við lok 1. bekkjar og september við upphaf 2. bekkjar. Gagnaöflun fór fram einstaklingslega, í hverjum skóla fyrir sig, sem hluti af stærri langtímarannsókn í umsjón dr. Önnu-Lindar Pétursdóttur (með Rannís-styrk nr. 207216-051). Í þessari rannsókn var unnið úr gögnum um þekkingu nemenda á hljóðum allra bókstafa og tvíhljóða íslenska stafrófsins. Niðurstöður sýndu að þekking nemenda á stafahljóðum var afar mismunandi, allt frá 1 til 35 stafahljóða við lok 1. bekkjar og frá 4 til 35 stafahljóða við upphaf 2. bekkjar. Hlutfallslega skorti mörg börn þekkingu á hljóðum algengra bókstafa og ekkert stafahljóð sem allir nemendur þekktu við upphaf 2. bekkjar. Nemendur með íslensku sem annað mál og nemendur í áhættuhópi höfðu að meðaltali slakari stafahljóðaþekkingu en jafnaldrar, en ekki mældist munur eftir kyni. Ekki mældist marktæk afturför milli 1. og 2. bekkjar, hvorki hjá hópnum í heild né með tilliti til kyns, móðurmáls eða stafaþekkingar í upphafi grunnskóla. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að nauðsynlegt sé að bregðast við og tryggja að öll börn læri hljóð allra bókstafa til að eiga möguleika á að þróa lestrarfærni sína. Það er von höfunda að niðurstöður nýtist við að efla lestrarkennslu byrjenda í lestri, þannig að fyrirbyggja megi vaxandi lestrarerfiðleika vegna skorts á undirstöðufærni
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2025 Jóhanna María Bjarnadóttir, Guðrún Lilja Kristófersdóttir, Auður Soffíu Björgvinsdóttir, Anna-Lind Pétursdóttir, Amelia Jara Larimer

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).