Langtímarannsókn á forspárgildi málþroskaathugana við 5–6 ára aldur um síðari líðan og reynslu
Lykilorð:
málþroskamælingar, líðan, reynsla í grunnskóla, langtímarannsóknÚtdráttur
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um ýmsa félagslega og sálræna þætti síðar á lífsleiðinni. Árin 1997 og 1998 var athugaður málþroski 267 leikskólabarna með HLJÓM2prófinu. Þessi börn, sem eru nú orðin fullorðin (18 og 19 ára), voru í þessari rannsókn beðin að svara rafrænum spurningalista um ýmsa þætti, meðal annars reynslu þeirra af grunnskólagöngu sinni, hvort þau hefðu verið greind með þætti sem hamla þeim í námi og hvort þau hefðu stundað nám að loknum grunnskóla. Niðurstöður sýndu marktæk tengsl milli árangurs á HLJÓM2 og margra þessara þátta. Þau sem höfðu sýnt slakan árangur á HLJÓM2 fannst námið í grunnskóla bæði erfiðara og leiðinlegra, þeim hafði frekar verið strítt eða þau lögð í einelti og höfðu frekar verið í sérkennslu en þau sem hafði gengið betur á HLJÓM2. Þessi sami hópur var einnig líklegri til að vera með greiningar um örðugleika, til dæmis var rúmlega fjórðungur þeirra sem sýndu slakan árangur á HLJÓM2 með greiningu um athyglisbrest og fjórðungur með námsörðugleika. Af þeim sem gekk vel á HLJÓM2 voru aftur á móti 12% með greiningu um athyglisbrest og 2% með námsörðugleika. Ljóst er að slakur árangur á HLJÓM2 spáir ekki aðeins fyrir um slakan árangur í námi heldur hefur hann einnig forspárgildi um slæma reynslu úr grunnskóla. Mikilvægt er að betri samvinna og samskipti um viðbrögð við niðurstöðum á HLJÓM2 náist milli leikskóla og grunnskóla. Þannig mætti koma betur til móts við þarfir nemenda í áhættu og draga úr eða koma í veg fyrir neikvæða reynslu þeirra í grunnskóla.##plugins.themes.default.displayStats.downloads##
##plugins.themes.default.displayStats.noStats##