Um sveitakennara í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887–1905
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2020.7Lykilorð:
sveitakennarar, sveitakennsla, farkennarar, Strandasýsla, HúnavatnssýslaÚtdráttur
Greinin sem hér birtist byggir á gögnum um sveitakennara í tveimur sýslufélögum við Húnaflóa; Strandasýslu og Húnavatnssýslu, áður en formlegri skólaskyldu var komið á. Á Þjóðskjalasafni eru varðveittar fræðsluskýrslur frá 1887 vegna styrkumsókna sveitakennara og veita þær dýrmætar upplýsingar sem hægt er að nýta til margvíslegra athugana. Í rannsókninni sem hér er kynnt er áhersla lögð á að grafast fyrir um þá einstaklinga sem önnuðust kennsluna á árunum 1887–1905.
Helstu niðurstöður eru að sveitakennarar í Strandasýslu voru mun færri en í Húnavatnssýslu. Ástæður eru aðallega tvær. Annars vegar var sú fyrrnefnda mun fólksfærri og eins virðist skipulögð sveitakennsla lítt eða ekki hafa farið fram í þremur nyrstu hreppum hennar; Árneshreppi, Kaldrananeshreppi og Hrófbergshreppi, en var nokkuð regluleg er sunnar kom. Hlutfall karl- og kvenkennara á Húnaflóasvæðinu var á pari við það sem gerðist meðal sveitakennara í landinu öllu fræðsluárið 1903–1904. Aftur á móti var hlutfall kvenkennara allmiklu hærra í báðum sýslum sé allt tímabilið 1887–1905 borið saman við landshlutfallið 1903–1904. Sjö af hverjum tíu sveitakennurum í Húnavatnssýslu höfðu hlotið einhverja formlega menntun en 36% þeirra sem kenndu í Strandasýslu. Flestir skólagengnu piltanna sóttu sitt nám í gagnfræða- eða búnaðarskóla en stúlkurnar í kvennaskóla. Bæði kven- og karlkennarar voru heldur yngri á Húnaflóasvæðinu en kollegar þeirra á landinu í heild miðað við árið 1901. Allar stúlkurnar voru 34 ára eða yngri og 74% karlanna. Í heild voru tæp 80% kennaranna við Húnaflóa á þeim aldri. Flestir kennararnir entust illa í starfinu. Vel innan við helmingur karlkennaranna gerðist bændur að aðalstarfi en aðeins 22% kvenkennaranna urðu húsfreyjur í sveit. Að minnsta kosti fjórir karlar og sex konur gerðu kennslu að aðalævistarfi af þeim 102 kennurum sem vitað er um við Húnaflóa á árunum 1887–1905 og nokkur til viðbótar komust nálægt því.