„Ef andleg heilsa er ekki í lagi þá er ekkert í lagi“
Raddir nemenda um eigin velfarnað í skólastarfi
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24270/serritnetla.2023.18Lykilorð:
velfarnaður grunnskólanemenda, raddir ungmenna, EPOCH-velfarnaðarkenning, jákvæð menntunÚtdráttur
Jákvæð menntun er skilgreind sem menntun sem eykur bæði velferð og námsfærni nemenda. Hún kennir þeim færni til að auka vellíðan og hamingju auk þess að ná árangri í hefðbundnum kennslugreinum. Kern og félagar (2016) hafa um nokkurt skeið rannsakað velfarnað nemenda undir formerkjum jákvæðar menntunar. Þau settu fram EPOCH-velfarnaðarkenninguna með fimm meginþáttum sem stuðla að velfarnaði ungmenna. Þessir fimm þættir eru áhugi og innlifun, þrautseigja, bjartsýni, félagsleg tengsl og hamingja sem gleði og sátt. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvaða hugmyndir ungmenni hafa um þá þætti sem þau telja að stuðli helst að velfarnaði sínum í skólastarfi og hvort EPOCH-þættir birtist í hugmyndum þeirra, ásamt að skoða hvort aðrir þættir koma þar einnig fram. Tekin voru sex hálfopin rýniviðtöl við samtals nítján nemendur í áttunda, níunda og tíunda bekk í sama skóla. Gögnin voru þemagreind og er niðurstaðan sú að allir þættir EPOCH birtust í svörum viðmælenda. Því er EPOCH-velfarnaðarkenningin gagnleg til að ná utan um mikilvæga þætti í velfarnaði ungmenna. Kenningin nær þó ekki fyllilega utan um alla þætti velfarnaðar í þessari rannsókn. Til dæmis var þátturinn að finna merkingu og tilgang áberandi í hugmyndum ungmennanna. Þeir EPOCH-þættir sem voru mest áberandi í gögnunum voru áhugi og innlifun og félagsleg tengsl. Styður það niðurstöður rannsókna Kern og félaga um mikilvægi þess að fást við viðfangsefni af innri áhugahvöt og að fá þörfinni fyrir að tilheyra mætt. Nemendur töldu að skólinn ætti að leggja meiri áherslu á ýmsa þætti sem stuðla að velfarnaði en nú er gert. Jákvæð menntun sem snýr að því að byggja upp persónuþroska og þar með velfarnað nemenda ásamt að efla námsárangur er nokkuð sem skólar geta litið til og komið þannig til móts við grunnþátt aðalnámskrár um heilbrigði og velferð
##plugins.themes.default.displayStats.downloads##
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2023 Elva Rún Klausen, Ingibjörg V. Kaldalóns, Bryndís Jóna Jónsdóttir

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).
