Snemmtæk íhlutun í lestrarnámi í 1. bekk

Höfundar

##doi.readerDisplayName##:

https://doi.org/10.24270/netla.2019.10

Lykilorð:

lestur, lestrarerfiðleikar, forspárgildi, snemmtæk íhlutun, Leið til læsis

Útdráttur

Í greininni er sagt frá rannsókn á áhrifum snemmtækrar íhlutunar í lestrarnámi. Í íhlutuninni var notað stuðningskerfið Leið til læsis en það er ætlað kennurum á yngsta stigi grunnskóla til að finna þau börn sem eiga á hættu að lenda í lestrarerfiðleikum annars vegar og til að skipuleggja íhlutun og meta áhrif af henni hins vegar. Stuðningskerfið Leið til læsis samanstendur af handbók, lesskimunarprófi og eftirfylgdarprófum í lesfimi og sjónrænum orðaforða. Rannsóknin fólst í því að skima fyrir mögulegum lestrarerfiðleikum hjá börnum í 1. bekk í einum grunnskóla og veita þeim viðeigandi íhlutun í hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu og málþroska. Rannsóknin náði yfir fyrsta vetur barnanna í grunnskóla. Íhlutunartímabilin voru þrjú og stóðu þau yfir í sex vikur hvert. Áhrif voru metin með eftirfylgdarprófum í lesfimi og sjónrænum orðaforða. Framfarir barna í íhlutunarhópi voru bornar saman við framfarir þeirra barna í árganginum sem ekki voru talin þurfa sérstaka íhlutun samkvæmt niðurstöðum skimunarinnar. Heildarfjöldi barna í rannsókninni var 39. Þar af voru 14 börn í íhlutunarhópi og 25 börn í samanburðarhópi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áhrif snemmtækrar íhlutunar með Leið til læsis séu jákvæð á heildina litið. Öll börn í íhlutunarhópi sýndu framfarir. Horft var til kenningar Stanovich um Matteusar-áhrif þar sem segir að börn sem eiga í erfiðleikum í lestrarnámi eigi á hættu að dragast aftur úr þeim börnum sem gengur vel og bilið milli þessara hópa muni því aukast með tímanum. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar jókst bilið ekki á milli hópanna og náði íhlutunarhópur að halda í við framfarir samanburðarhóps.

Um höfund (biographies)

  • Elva Eir Þórólfsdóttir
    Elva Eir Þórólfsdóttir (elvaeir@akmennt.is) er verkefnastjóri sérkennslu í Giljaskóla á Akureyri og stundakennari við Háskólann á Akureyri. Hún hefur lokið B.Ed.- prófi í kennarafræðum og M.A.-prófi í menntunarfræðum. Rannsóknin sem þessi grein byggist á var liður í meistaranámi hennar. Elva Eir hefur starfað á öllum stigum grunnskólans. Helstu verkefni hennar eru sérkennsla á yngsta stigi og teymisvinna í stoðþjónustu skólans.
  • Guðmundur Engilbertsson
    Guðmundur Engilbertsson (ge@unak.is) er lektor við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri (HA). Hann hefur lokið B.Ed.-prófi í kennarafræði og M.Ed.-prófi í menntunarfræði við HA og er doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands. Guðmundur hefur starfað við grunn- og tónlistarskóla og hefur um árabil verið ráðgjafi í þróunarstarfi í læsi. Helstu viðfangsefni hans í kennslu og rannsóknum lúta að orðaforða, læsi til náms og námsog kennslufræði.
  • Þorlákur Axel Jónsson
    Þorlákur Axel Jónsson (thorlakur@unak.is) er aðjunkt við Háskólann á Akureyri. Hann er í doktorsnámi á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og rannsakar námsgengi framhaldsskólanema. Þorlákur er cand. mag. í sagnfræði og þjóðfélagsfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1994.

Niðurhal

Útgefið

2020-01-30

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar

Mest lesnu greinar eftir sama höfund(a)